Hagsmunir hverra?

Ég verð að viðurkenna að ég hef verið býsna hissa á því að þessar fréttir kæmu ekki fyrr..  Það skal reyndar haft í huga að fréttin fjallar ekki um neina ákvörðun heldur eru þetta vangaveltur byggðar á því sem rætt er á göngunum.  Flokkarnir tveir geta varla átt mikla samleið lengur, þegar þörfin á því að skipta um gjaldmiðil er jafn augljós og nú.

Það er mín skoðun að ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að brjóta odd af oflæti sínu, viðurkenna ósigur krónunnar og Samfylkingin ekki að neita að starfa við slíkar aðstæður, þá eru menn uppteknari af flokkahagsmunum og völdum en hag þjóðarinnar sem kaus þá.  Jón Baldvin skoðar endurreisn Alþýðuflokksins.  Það væri óneitanlega skemmtileg og lífleg viðbót í stjórnmálin.


mbl.is Vilja nýjan stjórnarsáttmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fækkar þá lögreglumönnum í kjölfarið?

Tölvuvæðing er af hinu góða. Hún margfaldar afköstin víða í þjóðfélaginu. Afleiðing hennar er oft að þörf fyrir mannskap minnkar, og í fyrirtækjum þar sem tölvuvætt hefur verið, hefur fækkun starfsfólks oft komið í kjölfarið. Ég vona að viðhorf Lögreglunnar verði ekki, að þar sem skilvirknin sé orðin meiri með tölvuvæðingu bílanna megi fækka lögreglubílum.  Þörfin fyrir sýnilega löggæslu hefur aldrei verið meiri.  Þetta eru vonandi óþarfa áhyggjur, en einhvern veginn kemst ég ekki hjá því að hugsa svona þegar ég les þessa frétt.
mbl.is Tölvur í löggubíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvetur svona umfjöllun til skemmdarverka?

Það er gersamlega óþolandi og ólíðandi þegar skemmdavargar sem ekkert er heilagt fá útrás fyrir skemmdarfýsn sína með þessum hætti.  Hinsvegar velti ég fyrir mér rökum þeirra sem telja að fjölmiðlaumfjöllun um svona nokkuð helgi tilgang þeirra sem þetta stunda.  Því hefur verið fleygt fram að fólk eins og þeir sem krotuðu á Þristinn líti á sig sem listamenn sem róa að því öllum árum að fá athygli fyrir sig og "list" sína.  Eiga fjölmiðlar að hætta fréttaflutningi sem hugsanlega hvetur til skemmdarverka??  Spyr sá sem ekki veit.


mbl.is Skemmdarverk á Þristinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..og við eigum ekki einu sinni vegi sem bera bílaflotann.

Ja hérna hér.  Ég hef litlar áhyggjur af því hvort aðrir haldi að sér höndum eða ekki sem lýsir auðvitað ágætlega hversu léleg samfélagsvitundin er hjá mér.  Ég hef meiri áhyggjur af vegakerfinu íslenska sem er löngu sprungið.  Þeim heldur áfram að fjölga mínútunum sem við þurfum að eyða í skrjóðnum á milli miðbæjar og Breiðholts eða Hafnarfjarðar og Reykjavíkur í síðdegistraffíkinni.  Það er e.t.v. ástæðan fyrir því að bílarnir þurfi orðið að verða dýrari og þægilegri.  Við eyðum orðið sífellt meiri tíma í bílnum og hlutfallið á milli tímans sem við eyðum heima vs. bílnum er sífellt að breytast.  Er ekki kominn tími til að gera eitthvað til að snúa þessu við.


mbl.is 46,8% aukning í nýskráningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eurobandið.

Mikið gladdist ég um helgina þegar ég sá að Eurobandið með Friðrik og Regínu í broddi fylkingar verða framlag Íslands í Eurovision í ár.  Ég er einn af þeim sem hef einstaklega gaman af þessari keppni og á meðan ég bjó á Íslandi var alltaf troðfullt út úr dyrum í Eurovision partýi á Urðarstígnum.  Lagið í ár er grípandi og skemmtilegt og flutningur Fidda Fönk og Regínu á Laugardaginn minnti helst á kraftinn og gleðina hjá Selmu þegar hún flutti All out of luck.  Ég ætla ekki að reikna með sigri Íslendinga í keppninni en ég er sannfærður um að Eurobandið verður okkur til sóma í Serbíu.

Varðandi þau orð sem Friðrik lét falla eftir að sigurinn var vís má segja að þau hafi verið klaufaleg.  Enda hefur hann viðurkennt sjálfur að tilfinningarnar hafi hlaupið með hann í gönur og hann hefði betur látið þetta ósagt. 

Varðandi lag Mercedes Club, hohoho we say heyheyhey, tek ég ofan fyrir þeim að stökkva út í djúpu laugina, gerast tónlistarmenn með örstuttum fyrirvara og ná þessum árangri.  Þrátt fyrir að markaðssetning Valla sport hafi án nokkurs vafa haft gríðarleg áhrif á útkomuna er árangurinn frábær.  Ég fór því að velta því fyrir mér hvort mætti líkja þessu við það ef Nördarnir sem einhverjir muna eftir úr sjónvarpsþáttunum á Sýn hefðu unnið HK í fótbolta..


Dónaskapur jólasveina.

Það væri synd að segja að ég væri duglegur við bloggskrif hér á Moggablogginu, enda er aðalvettvangur minn til nettjáskipta hér.  Hinsvegar ákvað ég að segja hér frá því að ég aðstoðaði Gluggagægi og Stúf við að koma nýju lagi á stafrænt form.  Þeim bræðrunum fannst tími til kominn að söngur sá sem kyrjaður hefur verið á leikskólum landsins í áratugi yrði sunginn inn á band.  VIÐVÖRUN: Viðkvæmum kann að þykja textinn viðkvæmur og allt að því barnalegur.  Hafandi sagt þetta, mega hugrakkir smella hér og hlýða.

Aldnir hafa orðið.... miklu eldri.

Ef einhverntíma er ástæða til að rjúfa langa blogþögn er það á fæðingardegi sínum.  Það segja margir að aldur sé afstæður en samt sem áður bar ég nokkurn kvíða í brjósti yfir því að verða 36 ára.  Áfanginn næst raunar ekki fyrr en kl.15.10 í dag svo ég hef smá tíma til að njóta 35. 

En í ljósi þess að það er ekkert vont að vera 36, ætla ég að nota daginn til að fagna þeirra ára sem Guð hefur þegar gefið mér og líta með eftirvæntingu til þeirra sem framundan eru og allra þeirra skemmtilegu ævintýra sem lífið á eftir að bjóða mér. 

 Mikið er gaman að lifa.


Breiðavík vs. Byrgið.

Það er skemmtilegt þegar myndir með fréttum tengjast fréttinni ekki neitt.  Breiðavík og Byrgið eiga e.t.v. ýmislegt sameiginlegt en að mínu mati ekki nóg til þess að það sé forsvaranlegt að birta Byrgismynd af frétt um Breiðuvík.  Skemmtileg yfirsjón.


mbl.is Hyggjast tala við alla vistmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningagrínið

Kosningavökum er nú víðast hvar lokið.

Framsókn vann ekki sigur í þessum kosningum því þeir töpuðu svo miklu.  Þeir eru menn fyrir meiri að hafa viðurkennt það í fjölmiðlum.  Samfylkingin tapaði líka, en Ingibjörg Sólrún heldur því samt sem áður fram að Samfylkingin sé sigurvegari þar sem hann hafi mælst miklu minni í könnunum nokkrum vikum fyrir kosningar.  Það er sprenghlægilegt að heyra fólk beita svona brögðum. 

Ég sofnaði út frá kosningasjónvarpi um 5 leitið við þær fréttir að stjórnin væri fallin.  Ég vaknaði við sama kosningasjónarp um 8 leitið við þær fréttir að stjórnin væri ekki fallin.  Ég velti því fyrir mér hvort mig væri að dreyma, eða hvort ég væri vakandi en hefði dreymt fyrri fréttirnar.  Ég verð meira að segja dálítið ringlaður við að hugsa um þetta aftur á bak.

Hættum þessu rugli.  Teljum atkvæðin öll og birtum þau svo.  Það er engin þörf á að vera að hringla með þetta svona.  Hlutföllin geta svo auðveldlega breyst eins og margoft hefur áður komið fram.  Fyrstu tölur sem allir standa á öndinni yfir eru því jafnmiklar ekki-fréttir og óvísindalega unnar skoðanakannannir.


Kommúnisminn hefur tekið Eurovision yfir.

EEiríkur var flottur í kvöld eins og áður hefur komið fram.  Ég átti samt aldrei von á því að hann færi áfram.  Flottastur var hann þó í seinni fréttum sjónvarpsins þegar hann hvatti Íslendinga til að svara í sömu mynt og kjósa ekkert nema Svía eða Finna áfram. 
Menn eru nú farnir að tala um að það þurfi að breyta fyrirkomulagi keppninnar í þá átt að vestrænu þjóðir evrópu eigi séns.  Ég spyr mig, snýst þetta um mafíu austurþjóðanna og að þær sameinist um að kjósa hver aðra áfram, eða það að tónlistarsmekkur þeirra sé svona gerólíkur okkar?  Spyr sá sem ekki veit og nú væri gaman að sjá álit annarra.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband